Start

Ingibjörg Þórdís Sigurðardóttir

f. 07. 09. 1957 - d. 09.03. 2005.

Minningarorð

  

Í upphafsorðum var lagt var út frá orðum Jesú Krists um ljósið.

Ingibjörg Þórdís fæddist hér í Reykjavík þann 7.september árið 1957.  Faðir hennar var Sigurður Guðmundur Theódórsson.  Sigurður var fæddur 3.október árið 1929. Sigurður lést þann 19.október árið 1986.  Móðir Ingibjargar er Ásta Nína Sigurðardóttir.  Ásta Nína er fædd 14.febrúar árið 1937 og er búsett hér í borg. Ingibjörg var næstelst barna þeirra, eftirlifandi systkini Ingibjargar eru

Börkur Helgi Sigurðsson fæddur 1954, Ellert Helgi Sigurðsson fæddur 1960, næst yngstur Hlynur Helgi Sigurðsson fæddur 1962 og yngst er Auður Herdís Sigurðardóttir fædd 1970

 Ingibjörg átti sín æsku og uppeldisár í faðmi fjölskyldunnar að Háaleitisbraut 51.

Aðeins 19 ára gömul, eða þann 30. október árið 1976, gekk hún í hjónaband með Ingólfi Torfasyni.  Ingólfur er f. 31.janúar árið 1955 og átti heima á Sogaveginum þegar þau kynntust..   Þau voru bæði samrýmd og samhent í sínu hjónabandi.           Þau Ingólfur og Ingibjörg bjuggu hér í borg til áramóta 1988/1989 er þau fluttust búferlum til Gislaved í Svíþjóð þar sem fjölskyldan er enn búsett. 

Þau eignuðust fimm börn:

Elstur er Torfi Ingólfsson f. 10.febrúar 1977, starfar í tölvugeiranum í tölvufyrirtæki í Svíþjóð.   Hann er trúlofaður Súsönnu Svenningson, hjúkrunarkonu.

Ásta Nína Ingólfsdóttir f. 14.desember.1978.  Hún er sjúkraliði og stundar hjúkrunarnám í Jönköping.  Hún er í sambúð með Per Anders Petterson, sem sendir kæra kveðju sína en hann er við nám í Ástralíu og átti því ekki tök á að vera hér viðstaddur í dag.

Margrét Ingólfsdóttir f. 29.júní1983.  Hún er stúdent en fékk sér frí frá störfum til að geta ásamt öðrum annast móður sína heima.  En hún hyggur á frekara framhaldsnám.  Hún er trúlofuð Jani Borgenström.

Næst yngst Sigrún Thea Ingólfsdóttir f. 12. mars.1990, er ný orðin 15 ára og er í námi, býr í föðurhúsum.

Yngst er Sandra Björk Ingólfsdóttir f. 22.maí 1992 er enn í námi og í föðurhúsum.

 

Sagt hefur verið að fjölskyldan og börnin séu hin sönnu auðæfi þessa lífs, þau verðmæti sem við skiljum eftir þegar við kveðjum þetta tilverustig.  Það á vissulega við um þá konu þá miklu móður sem hér er kvödd. Slík var hennar lífsafstaða og hennar verðmætamat.  Ingibjörg var vissulega mikil móðir og helgaði líf sitt börnum sínum og fjölskyldu.

Inga eins og hún var ætíð kölluð meðal vina sinna var einstök kona.  Öll framganga hennar einkenndist af mikilli verkgleði og dugnaði.

Eins og áður segir voru þau hjónin mjög samhent og tókust sameiginlega á við það sem að höndum bar, bæði í blíðu og stríðu.  Sem dæmi um dugnað hennar má nefna það að auk þess að sinna uppeldi 5 barna ákvað hún að ljúka  stúdentsprófi í Svíþjóð og gerði hún það á tveimur árum.

Að eðlisfari var hún mjög félagslynd og þekkti marga.  Hún var sannur vinur vina sinna, sérlega hjálpsöm og bóngóð.

Gott fólk hér verður ekki flutt löng eða ýtarleg orðræða, það væri ekki í hennar anda.  Þið sem eruð hér saman komin eigið ykkar björtu minningar og hugans myndir sem hver og einn varðveitir og geymir hið innra um ókomin ár.

Lífshlaup Ingibjargar var ekki langt í árum talið en þó markar það vissulega djúp spor í vitund og líf ástvina.  Það bjarta ljós sem líf hennar og nærvera hefur skilið eftir í hugum og hjörtum  allra þeirra mörgu er hana þekktu mun lýsa bjart í minningunni, og varðveitast í hug og hjarta um ókomna framtíð.

Í heilagri ritningur  segir: 

“Jesú Kristur er sá sem upprisinn er.  Hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir okkur .  Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Guðs?  Mun þjáning gera það eða þrenging?  Nei.  Því ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né  dýpt, né nokkuð annað skapað, muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum”.

Þessi er hin kristna von og trú allra þeirra fjölmörgu í aldanna rás sem lagt hafa traust sitt á Jesú Krist og lagt ráð sitt í hans hendur.  Kærleikans Guð veldur ekki áföllum þeim sem við verðum fyrir í þessu lífi en hann er reiðubúinn að líkna og styrkja þá sem til hans leita.  Hann gefur að sjá ljós framundan þegar gengið er í gegnum dimman dal og Guð gefi að við náum að tileinka okkur þá björtu og fögru lífssýn sem einkenndi þá konu sem við hér kveðjum.   

Sá sjúkdómur sem Ingibjörg hefur svo hetjulega glímt við var fyrst greindur í maí mánuði á síðastliðnu ári.  En hér verður ekki dvalið við allt það erfiða ferli.... Veikindum sínum tók hún af miklu æðruleysi og því andlega jafnvægi sem einkennir þá sem kynnst hafa mótlæti í lífinu og lært að takast á við það. 

 

 

En víst er að í öllu því erfiða ferli naut hún kærleiksríkrar nálægðar, ómetanlegs stuðnings, aðhlynningar og umönnunar,  allra sinna nánustu allt þar til yfir lauk.

Ingibjörg hefur nú fengið lausn úr viðjum brostins líkama, lausn undan þungu sjúkdóms oki.

Nú þegar numið er staðar við lok lífsgöngu hennar er hér kvatt í trú og þökk.  Í trú á kærleikans Guð sem tekur þá til sín sem frá okkur fara.  Í þökk fyrir þá birtu, von og fyrirmynd sem hún eftir lætur í hug og hjarta, er hún nú gengur inn í eilífðar ljósið.

Megi kærleikans Guð blessa og varðveita eftirlifandi eiginmann og börn, móður hennar, systkini og alla ástvini. 

Aðstandendur þakka af heilum hug öllum þeim mörgu sem veitt hafa stuðning og hjálp í því erfiða ferli sem nú er að baki.  Og hvað varðar þá minningarathöfn sem hér er haldin og alla þá umgjörð sem henni fylgir er Lovísu Guðmundsdóttur, náinni vinkonu Ingu, sérlega þakkað.

Við felum hina látnu Guði á vald og treystum að hann muni sameina að lokum alla sem unnast, í sínu kærleiks ríki.  Guðs miskunn og náð er yfir okkur á þessum degi sem og alla tíð. Hvíl þú í friði kristna sál, í Jesú helgasta nafni.

Amen.