Minningarsiða

 Jarðaför | Minningartal
 
Minningagrein | Myndir | Jarðsetning



Ragna María Sigurðardóttir minningargreinar / orð frá ættingjum og vinum. MBL.is


Ragna María Sigurðardóttir fæddist í Gíslabæ í Breiðuvíkurhreppi á Snæfellsnesi 1. ágúst 1934. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut, fimmtudaginn 15. mars síðastliðinn.

Foreldrar hennar voru Sigurður Ásmundsson sjómaður, f. 1. febr. 1894, d. 1. feb. 1985, og Pálína Ásgeirsdóttir húsfreyja, f. 26. apríl 1894, d. 28. maí 1971. Systkini Rögnu, sem eru látin, voru Guðbjartur Bergmann, Guðmunda Ragnhildur, Ingólfur, María, Guðdís og Ása. Eftirlifandi er einn bróðir, Halldór, f. 25. mars 1936.

Ragna var þrígift og eignaðist fjögur börn, þau eru:

Dóttir hennar og Gunnars Guðbjörnssonar, f. 15. nóv. 1930 er 1) Ingveldur Jóna, f. 31. desember 1952, maki Brynjúlfur G. Thorarensen, f. 4. apríl 1951, d. 17. júlí 1999. Synir þeirra eru Ólafur og Ingi Þór.

Sonur Rögnu og Baldrurs Sveinssonar trésmið, f. 23. apríl 1931. d. 13 jan. 2013., er 2) Ingólfur, f. 30. jan. 1955, maki Ingibjörg Þ. Sigurðardóttir, f. 7. sept. 1957, d. 9. mars 2005. Börn þeirra eru Torfi 1977, Ásta Nína 1978, Margrét 1983, Sigrún Thea 1990 og Sandra Björk 1992.

Börn Rögnu og Torfa Ingólfssonar, f. 30. nóv. 1930,  3) Guðbjörg, f. 12. mars 1956, eiginmaður Jan Nestor Jacobsen, f. 22. júní 1944. Sonur hennar og Óskars Gunnlaugsonar er Torfi Ragnar og sonur hennar og Rúnars B. Sigurðssonar er Sigurður Huldar. 4) R. María, f. 17. júní 1964, maki Ole Halvor Pedersen f. 3. des. 1955, synir þeirra Sverre, Karl Erik og Öystein. Dóttir hennar og Halldórs Jónssonar er Unnur.

Ragna giftist 14. júlí 1984 Baldri Sveinssyni trésmið, f. 23. apríl 1931. d. 13 jan. 2013. Börn hans eru: 1) Aðalbjörg, f. 4. mars 1956, maki Gylfi Skúlason, f. 19. apríl 1956, börn þeirra Baldur Rafn og Elsa Ruth. 2) Páll, f. 5. okt. 1957, d. 9. okt. 1986, sonur hans og Gígju Magnúsdóttur, f. 6. júlí 1964, er Magnús Andri. 3) Þóra Björk, f. 23. febr. 1970, maki Einar Hermannsson, f. 24. nóv. 1968, synir þeirra Aron og Orri. Þóra Björk ólst upp hjá Rögnu og föður sínum frá 11 ára aldri.

Barnabarnabörn Rögnu og Baldurs eru 7.

Ragna starfaði m.a. við verslunarstörf hjá Kjötborg í Búðargerði og skóverslun Steinars Waage, einnig í nokkur ár í Prentsmiðjunni Odda og síðan sem læknaritari hjá Birni Önundarsyni og í Domus Medica. Ragna og Baldur fluttu að Laugagerðisskóla á Snæfellsnesi 1997 og bjuggu þar til ársins 2002 er þau fluttu að Hrafnakletti 4 í Borgarnesi. Árin í Borgarnesi notuðu Ragna og Baldur til að sinna áhugamálum sínum sem var handavinna og föndur af öllu tagi og fóru hún og Baldur nokkrum sinnum í viku yfir vetrartímann í Starfið eins og hún kallaði það en þetta starf er á vegum Félags aldraðra í Borgarnesi.

Ragna verður jarðsungin frá Bústaðakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

 

 

Elsku Ragna mín eða "stjúpa mín" eins og ég hef alltaf kallað þig. Nú er þjáningum þínum lokið og þín bíða væntanlega önnur hlutverk í æðri veröld. Við eyddum saman nótt á bráðamóttökunni fyrir rúmri viku, þegar þú varst flutt mikið veik frá Borgarnesi. Þú varst hrædd og þjáð og fannst mér allur lífsþróttur farinn úr augunum þínum og ég fann að ekki væri langt eftir. Meðan ég lá á bekk við hlið þér og horfði á þig rann þessi grein sem hér er rituð í gegnum kollinn á mér og fannst mér ég verða koma henni til skila þó svo að hún sé svolítið persónuleg. Við höfum í gegnum tíðina lifað saman súrt og sætt, báðar misst mikið en átt það eitt sameiginlegt að hafa átt saman besta mann í heimi, hann pabba minn sem nú syrgir ástina sína sárt. Það var dásamlegt að fylgjast með hvað þið voruð náin alla tíð. Ég kynntist þér 11 ára gömul, mamma og pabbi skilin, móðir mín mikið lasin og pabbi farinn að vera með annarri konu, henni Rögnu. Ég flutti til ykkar og alls ekki sátt við lífið og tilveruna enda á erfiðum aldri fyrir svona miklar breytingar. Okkar samband var frekar erfitt í fyrstu en við þroskuðumst mjög vel saman og urðum góðar og nánar vinkonur með árunum. Þú studdir mig alltaf, dæmdir mig aldrei og ég gat sagt þér frá öllum mínum sorgum og sigrum, alltaf skildir þú allt litróf lífsins manna best. Og þakka ég þér fyrir að hafa verið mér við hlið allt mitt líf þar sem móðir mín dó er ég var ung að árum. Öllum "körlunum mínum" varst þú góð, þú varst drengjunum mínum góð amma, sýndir þeim athygli, tíma og hlýju eins og góðri ömmu sæmir og tókst þeim eins og þínum eigin barnabörnum. Einar minn leit mikið upp til þín fyrir mikla mannkosti þína og þótti afskaplega vænt um þig og hefur aldrei misst neinn sér eins náin og þig og saknar þín sárt. Ég vona að ég fái að erfa eitthvað að þínum góðu eiginleikum eins og æðruleysi, jákvæðni og elju, þó að ég hafi ekki verið blóðtengd þér þá áttir þú alltaf svolítið í mér. Nú vinn ég á þínum gamla vinnustað þar sem þú komst mér í vinnu 16 ára gamalli við skúringar og finnst mér ég einhvern vegin tilheyra og tengjast því húsi tilfinningaböndum þín vegna. Þegar ég kvaddi þig fyrir nokkrum dögum lofaði ég þér að hugsa vel um pabba þar sem ég vissi að þú varst óróleg að fara frá honum og ætla ég að gera mitt besta í því. Ég vona að þú sért búin að hitta þitt fólk í hinni æðri veröld og laus við þjáningar sjúkdómsins, ég er viss um að þú verður fljót að setja þig inn í hlutverk þar. Elsku Ragna mín, þakka þér allt, að hafa verið til fyrir mig og ég vona að pabbi fái góðan styrk og stuðning til að takast á við fráfall þitt þangað til þið hittist aftur.

Þín fósturdóttir,

Þóra Björk.

Elsku Ragna mín.

Nú hefur þú fengið hvíldina sem sjúkdómar þínir fengu þig til að þrá undir lokin. Þú hefur verið alveg ótrúleg í baráttu þinni og hefur sannað það að maður kemst sko langt á jákvæðninni.

Þú varst handavinnukona í húð og hár og við minnumst þín með gleði þegar við sjáum alla hlutina sem þú hefur gefið okkur í gegnum árin. Eina af fyrstu minningunum á ég einmitt af þér við föndur þegar ég var smástelpa en þá vorum við í Breiðholtinu saman og máluðum keramik rétt fyrir páska, litla páskaunga. Þeir hafa alltaf verið í uppáhaldi hjá mér og fá framvegis heiðursstað hjá kertinu þínu. Ég vona innilega að þú hvílir þig aðeins áður en þú byrjar að föndra á himninum því þú átt hvíldina sannarlega skilið.

Við munum gera okkar besta við að styðja elsku afa en hann er nú hálfur maður án þín.

Minningin um þig mun lifa í hjarta mínu.

Þín

Elsa Ruth.

 

Móðursystir mín Ragna María var aðeins átta árum eldri en ég, og er því samofin minningum mínum allt frá barnæsku. Hún og Halldór bróðir hennar, tveim árum yngri, voru enn börn í foreldrahúsum þegar við systkinin, börn elstu systurinnar, Guðdísar, munum fyrst eftir okkur. Amma og afi bjuggu þá á Kirkjubrú á Álftanesi. Minningabrotin eru slitrótt, en kennslustundir í hjólreiðum eru minnisstæðar þegar þeim systkinum kom saman um að árangursríkast væri að hjálpa okkur af stað og láta hjólið síðan renna niður brekku á túninu.

Eftir byltur og grát, hvatningarorð og hrós, náðist jafnvægið og allir voru glaðir með árangurinn.

Ragna varð ung móðir, aðeins átján ára. Ingveldur Jóna dóttir hennar var fyrsta litla barnið sem ég kynntist. Og hvílík ábyrgð sem ég fann fyrir þegar ég fékk að klæða hana í fínu kjólana sem mamma hennar saumaði með aðstoð ömmu og síðan var hápunkturinn að keyra hana alein úti í fína vagninum.

Inga var ekki lengi einbirni því rúmum tveim árum síðar fæddist Ingólfur og ári þar á eftir Guðbjörg. Tuttugu og tveggja ára, þriggja barna móðir þótti ekkert tiltökumál á þessum árum. Þegar Ragna María, yngsta barnið fæddist var Ragna að verða þrítug. Nú voru börnin orðin fjögur sem þurfti að fæða og klæða. Henni veittist létt að sauma á þau fötin þar sem saumaskapur og handavinna voru innan hennar áhugasviðs.

Ragna fór út á vinnumarkaðinn meðan María var enn ung, og kom sér þá vel að eiga stálpuð börn sem gátu aðstoðað við að gæta litlu systur. Eflaust muna margir eftir henni þegar hún var læknaritari hjá Birni Önundarsyni lækni og síðar til fjölda ára í Domus Medica. Hún var einstaklega vel fallin til þeirra starfa, glaðsinna og viðmótsþýð. Hún eignaðist marga vini og kunningja sem hún rækti vinskap við. Móðursystir mín var órög við breytingar, þess vegna brá engum þegar þau hjón, hún og Baldur, réðu sig sem starfsmenn að Laugagerðisskóla á Snæfellsnesi árið 1997, þá komin yfir sextugt. Þar nutu þau sín vel og stækkaði vinahópurinn enn frekar. Þegar aldur og heilsuleysi læddist að fluttu þau sig um set og fluttust í Borgarnes.

Þar áttu þau góð ár enn um stund og fannst mér þau fljótlega verða eins og innfædd, slík var ást þeirra á staðnum. Ragna fór fljótlega að starfa með eldri borgurum í öflugu tómstundastarfi og afraksturinn lét ekki á sér standa. Yndislegar gjafir bárust vítt og breitt og báru listfengi frænku minnar vitni.

Ég veit að í erfiðum veikindum hennar var félagsskapurinn við fólkið og útrásin fyrir sköpunargleðina henni mikils virði.

Nú er komið að leiðarlokum í þessari veröld, en ég gæti allt eins trúað að þær systur Ása, Ragna og mamma sitji saman við hannyrðir á öðrum stað.

Amma Pálína lítur brosandi eftir og sér að það sem hún innprentaði þeim ungum hérna megin hefur varðveist, þær vanda sig og gera allt vel.

Ég kveð frænku mína og þakka henni samfylgdina gegnum árin.

Hrefna Kristbergsdóttir.

 

Á svona stundu fer maður á flug aftur í tímann og minningar hellast yfir mann. Mér er minnisstæðast þegar þið Baldur buðuð mér gistingu í Álakvíslinni, á þeim tíma leigði ég herbergi úti í bæ, var eitthvað veikur og ykkur Baldri fannst það ómögulegt að ég væri einn og veikur úti í bæ. Ég fékk að gista í gestaherberginu en það leið ekki á löngu þar til ég færði mig yfir í herbergið ská á móti, þannig að þessi veikindi mín enduðu á því að við Þóra urðum par. Þó að nokkrir árekstrar hafi verið á milli okkar til að byrja með, þá er það löngu gleymt og grafið. Þegar ég flutti til ykkar borðaði ég bara draslmat og var mjög matvandur, þú kenndir mér að borða íslenskan mat og stendur þar upp úr íslensk kjötsúpa og plokkfiskur sem þú gerðir afbragðsvel. Það góða í þínu fari var hreinskilni og komst þú þínu á framfæri án þess að móðga viðkomandi. Í öll þessi ár hafið þið Baldur staðið eins og klettur við hliðina á okkur Þóru, oft höfum við á aðstoð þurft að halda, t.d. vegna drengjanna okkar, sem voru mikið hjá ykkur, hvort sem þið bjugguð vestur í bæ, í Laugargerðisskóla eða Borgarnesi. Strákarnir búa að því alla ævi. Það var alltaf gott að tala við þig um alla hluti, þú dæmdir aldrei neinn, það er fáum gefið. Æðruleysið kemur fyrst upp í hugann þegar ég hugsa til þín. Einnig varstu með lúmskan húmor, sem ég hafði gaman af. Það er mikill söknuður sem fylgir því að þú sért farin frá okkur en jafnframt léttir fyrir þig að þurfa ekki að berjast lengur við sjúkdóminn sem hafði sigur að lokum. Strákarnir okkar Þóru sakna líka ömmu Rögnu, en eru sáttir við að amma þurfi ekki að þjást meira. Nú ertu komin til englanna og er ég viss um að þú sért búin að stofna föndurklúbb, enda gaf föndrið þér mikið og allir í kringum þig fengu að njóta þess.

Elsku Ragna það er með trega sem ég kveð þig.

Takk fyrir allt.

Einar Hermannsson.

 

Elsku Ragna, nú ertu farin leiðina löngu en minningin um þig mun lifa í huga mér.

Þær voru þrjár systurnar, Ragna, Dídí og mamma Ása. Ragna var yngst þeirra og síðust til að kveðja þennan heim. Þær voru ákaflega samrýndar og mikill samgangur á milli heimila þeirra og bróður þeirra, Halldórs. Um helgar fórum við systkinin með mömmu og pabba í bíltúr til Reykjavíkur í heimsókn til ömmu og afa í Melgerði, þar sem Ragna bjó ásamt fjölskyldu sinni. Við börnin lékum okkur saman og iðulega fengum við að gista. Ekki þótti mér verra þegar Ragna kom með fjölskylduna í sveitasæluna á Álftanesi og Inga, Ingólfur og Gugga gistu hjá okkur. Samgangur minnkaði þegar allir voru orðnir fullorðnir en þegar ég eignaðist mín börn fórum við Valli að heimsækja Rögnu og Baldur meira. Sérstaklega minnist ég hversu gaman Andra og Dagnýju þótti að heimsækja þau í Laugagerðisskóla. Mamma hafði farið með Dagnýju þangað einhverju sinni þegar hún heimsótti þau og fannst Dagnýju svo gaman. Þar var dekrað við hana. Baldur fór með hana í sund og á hestbak, sem er eitt það skemmtilegasta sem hún gerir. Ragna spilaði við hana og föndraði með henni. Þau voru eins og afi og amma. Dagný hændist mjög að Rögnu, sérstaklega eftir að mamma dó. Hún hikaði ekkert við að heimsækja Rögnu og Baldur ein, hvort sem var í Laugagerðisskóla eða Borgarnes. Ég minnist Rögnu sem glaðrar konu sem alltaf var brosandi og jákvæð, þrátt fyrir að lífið væri ekki alltaf dans á rósum. Hún var blíð og góð og sérstaklega bóngóð. Glæsileg kona var Ragna og ungleg, bæði á líkama og sál. Það var ekki fyrr en síðasta daginn sem ég sá hana að mér fannst Ragna hafa elst. Það var daginn sem baráttan var að tapast í löngu stríði við illvígan sjúkdóm. Þrátt fyrir þessa baráttu var hún eins og ég minnist hennar frá æsku alla tíð. Elsku Baldur, Inga, Gugga, Ingólfur, Maja og Þóra Björk, ég samhryggist ykkur innilega en veit að góðar minningar um Rögnu eiga eftir að fylgja okkur öllum um alla framtíð.

Pálína Sveinsdóttir.

Margs er að minnast,

Margt er hér að þakka.

Guð sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

Margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð

(V.Briem)

 

Það eru forréttindi að hafa átt þig að vini í gegnum árin, konu sem var með stórt hjarta, alltaf tilbúin að rétta hjálparhönd og gleðja aðra með fallegum munum sem þú gerðir sjálf – þú varst listamaður í þér. Við hjónin kynntumst Rögnu og Baldri fyrir nokkuð mörgum árum, þá í gegnum sameiginlegt áhugamál sem voru hestar. Það voru farnar margar útreiðar og það var ekki farið af stað nema Ragna og Baldur kæmu því þá var ferðin fullkomin því að betri vini var ekki hægt að hugsa sér. Það var alltaf gaman hjá okkur – við náðum svo vel saman – og svo allar stundirnar sem við áttum með ykkur hjónum í Laugagerðisskóla, Borgarnesi og Skorradalnum – það var mikið spilað, spjallað og sungið þegar við hittumst og rifjaðar voru upp gamlar minningar og þá voru hestar ofarlega í huga. Það væri hægt að halda endalaust áfram að rifja upp góðu minningarnar sem við áttum með þér en við viljum minnast Rögnu, sem við kveðjum nú í dag, konu sem hafði svo margt að gefa; kærleika, vinskap, gleði, hláturinn og ekki síst kraftinn sem hún Ragna hafði þó oft væri hún mjög veik.Við erum aldrei búin undir að kveðja en fyrirheit Drottins um eilíft líf gefa okkur von um endurfundi í dýrð eilífðarinnar. En við kveðjum Rögnu í þökk fyrir samfylgdina og trausta vináttu á lífsins vegi. Felum við hana þeim Guði sem gaf henni lífið og biðjum góðan Guð að styrkja Baldur, börnin, tengdabörn og aðra ættingja og vini.

Karl og Emilía.

 

 

Ljúf og fölskvalaus rós er fölnuð, eftir stranga og langa baráttu við illvígan sjúkdóm, sem hún bar af stakri hugprýði og reisn til efsta dags.

Við tímamót hrannast upp góðar minningar frá umliðnum áratugum, þar sem Ragna var æ brosmild, gefandi og með mjög góða nærveru.

Viljum við hjón þakka órofa tryggð, gæsku og gleði sem frá henni hefur stafað í firð fortíðar, er gengið var af græskuleysi um gleðinnar dyr.

Megi minning um mæta konu milda söknuð og fylgja okkur um ókomna tíð.

Vottum Baldri og afkomendum okkar dýpstu samúð.

Far í friði á ódáinsakra eilífðar.

Rut og Friðgeir.

 

2007-05-05 Margret Ísaksdóttir

Að heilsast og kveðjast er lífsins saga, en að kveðja vini sína í hinsta sinn er erfitt. Elsku Ragna mín, einhvern veginn finnst mér eins og ég hafi alltaf þekkt ykkur Baldur, þótt ekki séu nema tæp átta ár frá því að við hittumst fyrst. Það var haustið 1999 að við Pálína, sem þá var bara fjögurra ára, fluttum í Laugargerði og vissum í raun ekkert hvað biði okkar. Kynni okkar hófust á því að þú tókst að þér að gæta Pálínu á meðan ég var að vinna. En það var svo miklu meira en pössun því að í ykkur Baldri eignaðist hún nýja ömmu og nýjan afa, sem var henni mjög dýrmætt. Vinátta ykkar var mér líka mjög mikils virði, eins og ég hef oft sagt ykkur. Það er sérstakt að búa á lítilli torfu eins og samfélagið okkar í Laugargerði var. Við stofnuðum t.d. matarklúbb og hittumst reglulega utan vinnutíma. Það var frábært. Að vinna með ykkur Baldri var líka einstakt, alltaf tími til að ræða málin og ef eitthvað þurfti að gera var aldrei spurning hjá ykkur að vera með og taka þátt í öllu, alveg sama hvað það var. Eftir að við fluttum aftur í Hveragerði voruð þið okkur alltaf jafn góð, eins og þegar ég fékk þá hugmynd að setja nýjan sólpall við húsið, eða þegar ég þurfti að setja upp nýja eldhúsinnréttingu. Þá mættuð þið, Baldur var yfirsmiðurinn, ég handlangarinn og þú, Ragna mín, sást um að allir fengju nóg að borða. Fyrir allt er ég ykkur óendanlega þakklát. Í haust þegar þú hringdir í mig og sagðir mér frá veikindum þínum, sagðist þú vilja segja mér frá þessu sjálf. Ég dáðist að því af hve miklu hugrekki þú tókst þessum tíðindum. Þegar ég orðaði það við þig sagðist þú vera svo þakklát fyrir lífið sem þú hefðir lifað og hversu góðan mann, góða fjölskyldu og góða vini þú ættir að þú hefðir ekki yfir neinu að kvarta. Að leiðarlokum vil ég þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og mína og vona að allir englarnir dansi og syngi í kringum þig þegar þú ert komin til himna.

Elsku Baldur minn, kletturinn í lífi Rögnu, ég bið góðan Guð að gæta þín og allrar fjölskyldunnar og veit að góðar minningar um Rögnu munu ylja ykkur í framtíðinni.

Margret Ísaksdóttir

og fjölskylda.

 

2007-05-23  Sigríður og Ármann

Ég verð að segja eins og er að ég á erfitt með að trúa því að hún Ragna sé fallin frá. Frá því að þau Baldur fluttu í sama stigagang og við fyrir tæpum fimm árum hefur verið góður og mikill samgangur á milli okkar.

Ég bíð enn eftir að síminn minn hringi og Ragna segi "Sigríður, komdu nú upp í kaffisopa", en nú er hún komin í betri heim laus við þjáningar sem hún bar með reisn.

Þau sæmdarhjón voru samhent og samtaka að hjálpa öðrum með hvað sem var. Ragna var hlý og góð, gjafmild, gestrisin, glaðlynd og hreinskilin.

Ég gæti haldið áfram að telja upp kosti hennar en læt hér staðar numið.

Elsku Baldur og fjölskylda, Guð styrki ykkur öll á þessum erfiðu tímum.

Elsku Ragna, ég sakna þín svo mikið. Vertu Guði falin og blessuð sé minning þín kæra vinkona.

Sigríður og Ármann

2007-06-20 Sigríður og Björn Önundarsson

Ragna Sigurðardóttir vinkona okkar er látin. Því miður vissum við ekki af því fyrr en nokkru eftir andlátið og er því þessi kveðja síðbúin. Ragna var náinn vinur okkar hjóna um árabil. Það var mjög gefandi, að kynnast Rögnu og fjölskyldu hennar, því þar var alltaf góðsemi í fyrirrúmi.

Örlögin háttuðu því svo, að Ragna vann náið með undirrituðum á læknastofu hér í Reykjavík um árabil. Þau störf verða aldrei fullþökkuð, en Ragna hafði þann dýrmæta eiginleika, að hún gat leyst hvers manns vanda.

Ragna Sigurðardóttir var ein af þeim konum sem eru bæði ósérhlífnar og duglegar. Allir þeir mörgu sjúklingar sem leituðu á stofu þar sem við Ragna unnum saman fóru glaðari af hennar fundi. Hún hafði þann hæfileika að færa fólki gleði og uppörvun. Bæði við fólk sem átti við sjúkdóma og andleg bágindi að stríða.

Við hjónin og fjölskyldur okkar sakna Rögnu okkar mjög mikið. Svo sem að framan greinir var vinátta á millum okkar fjölskyldu og fjölskyldu Rögnu um langt árabil.

Nú er harmur þungur kveðinn að fjölskyldu Rögnu. Við samhryggjumst börnum hennar og öðrum ættmennum á þessari sorgarstundu.

Við sendum fjölskyldu Rögnu, eiginmanni hennar og börnum okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Ragna mín, við þökkum þér vináttuna og samstarfið um langt skeið. Biðjum góðan guð að blessa þig og þína um alla framtíð.

Sigríður og Björn Önundarson.

Barnabarnabörn Rögnu og Baldurs.

i dag 2018-07 eru þaug orðin 7




© I.B. 2015
Minningarsiða Ingibjörg Þórdís Sigurðardóttir tengdadóttir
Minningarsida Baldur Sveinsson eiginmaður
Ættarsíða 1
Ættarsida 2